27. mars 2020

Höldum áfram á sömu braut - Í lok viku tvö

Þá er þessari annarri viku lokið þar sem skólalífið eins og við þekktum það er gjörbreytt. Við héldum sama plani þessa vikuna og fyrstu vikuna fyrir utan að við þurftum að sameina hópa í annars vegar í 6. bekk og hins vegar í 7. bekk vegna fámennis. Það var í lagi að gera það þar sem þessir hópar voru að mæta á sama degi í skólann og eru enn í sama sóttvarnahólfi.

Nú siglum við inn í síðustu vikuna fyrir páska og höldum áfram sama skipulagi. Börnin sem mæta í skólann fá gæðakennslu annan hvern dag og nemendur sem eru í heimanámi með aðstoð eru í góðu sambandi við kennarana sína.

Það er mikilvægt að allir foreldrar fylgist vel með á Mentor þar sem öll heimavinna og verkefni eru sett inn, bæði fyrir þá sem eru í skóla annan hvern dag og nemendur í 8. – 10. bekk. Nemendur í 8. – 10. bekk fá fyrirmæli og skila verkefnum í OneNote og geta svo verið í persónulegum samskiptum við kennara á Teams.

Við erum svo heppin að þegar þetta er skrifað vitum við ekki um neitt smit í okkar nánasta umhverfi og enn hefur enginn hópur eða bekkur lent í að vera sendur í sóttkví vegna náinna samskipta við smitaðan einstakling. Við skulum vona að það haldist fram að páskaleyfi.

Eitt að lokum. Nú eins og áður er mikilvægt að halda börnum heima ef þau sýna einhver einkenni sjúkdómsins. Þau einkenni eru hiti, hósti, þreyta, vöðva-, bein-, eða höfuðverkur. Það er mikilvægt eins og sóttvarnalæknir fór yfir á fundi í vikunni að nemendur séu einkennalausir í tvo daga áður en þeir koma í skólann. Heilbrigð börn eru velkomin í skólann.

Að lokum langar okkur að þakka fyrir allar kveðjurnar og stuðninginn sem við höfum fundið frá ykkur ágætu foreldrar á þessum skrýtnu og fordæmalausu tímum.

Kær kveðja

Stjórnendur Akurskóla

Sigurbjörg, Þormóður, Guðrún og Katrín Jóna.

Hnetur

Myndirnar sýna dæmi um hnetur eða mat sem inniheldur hnetur. Þær geta leynst í ýmsum öðrum matvörum.

  • Reykjanesbær
  • Heimili og skóli
  • Foreldrafélag Akurskóla