28. maí 2020

Næstu dagar og skólaslit Akurskóla

Þessa dagana er mikið um að vera í Akurskóla. Í gær frumsýndi leiklistarvalið söngleikinn Hársprey. Allir nemendur skólans fengu að koma á eina sýningu og voru hæstánægðir. Nemendur í 10. bekk sýndu svo útskriftarmyndbandið sitt þar sem þau gerðu grín að sjálfum sér og starfsfólkinu og var mikið hlegið. Aðstandendasýning verður svo í kvöld, fimmtudag.

Þessa dagana eru þemadagar í skólanum og nemendur um víðan völl að glíma við öðruvísi verkefni en dagsdaglega. Nemendur í 1. – 7. bekk eru undir berum himni og nemendur í 8. – 10. bekk glíma við verkefni sem tengjast hönnun, tækni og umhverfismennt. Kl. 14.30 í dag keppir svo lið Akurskóla í Skólahreysti og er sýnt beint frá keppninni á RÚV.

3. júní verður Vorhátíð skólans og nemendur mæta til leiks til að keppa í hinum ýmsu greinum. Foreldrafélag Akurskóla býður svo upp á skemmtiatriði í lok hátíðar.  

4. júní er skertur nemendadagur og eru nemendur í skólanum hjá umsjónarkennara til kl. 10.40 og halda þá heim.

Þetta sama kvöld verður hátíðarkvöldverður 10. bekkjar í boði foreldra og útskrift 10. bekkjar. Í ljósi fjöldatakmarkana þá biðjum við eingöngu foreldra að mæta á útskriftina sem hefst um kl. 20.00 eftir hátíðarkvöldverðinn á sal skólans. Skipulag frá kl. 17.30 er í höndum foreldra.

Föstudaginn 5. júní mæta nemendur í 1. – 9. bekk kl. 8:10 í skólann og dvelja hjá umsjónarkennara til kl. 9.30, þá eru frímínútur og nesti. Kl. 10.00 verða skólaslit fyrir nemendur í 1. – 9. bekk í stofum. Foreldrar eru velkomnir í skólann kl. 10.00 til að vera viðstaddir skólaslitin í stofum nemenda.

5. júní er því síðasti skóladagurinn á þessu skrýtna skólaári. Næsta haust verða miklar breytingar á nemendafjölda og þar af leiðandi starfsmannafjölda við skólann. Stapaskóli tekur til starfa og tekur við þeim nemendum sem nú eru í 6. – 8. bekk hér í Akurskóla og búa ofan Urðabrautar. Þetta verður til þess að nemendum fækkar úr 430 í um 340. Við óskum þeim sem fara frá okkur velfarnaðar á nýjum stað.

Við þökkum ykkur öllum, nemendur og foreldrum kærlega fyrir samstarfið þetta skólaárið og hlökkum til að sjá nemendur Akurskóla á skólasetningu 24. ágúst 2020.

Hnetur

Myndirnar sýna dæmi um hnetur eða mat sem inniheldur hnetur. Þær geta leynst í ýmsum öðrum matvörum.

  • Reykjanesbær
  • Heimili og skóli
  • Foreldrafélag Akurskóla