29. apríl 2022

Nemendastýrð foreldraviðtöl

Nemendastýrð foreldraviðtöl

Í byrjun apríl var samtalsdagur í Akurskóla. Í ár var ákveðið að hafa hann ekki hefðbundinn heldur reyna að hafa daginn sem mest nemendastýrðan þ.e. nemendur undirbjuggu viðtalið og stýrðu því að mestu leyti. Markmiðið með þessu var að gera nemendur ábyrga og meðvitaðri um námslega stöðu sína og brjóta upp hið hefðbundna form samtalsdaga.

Nemendur undirbjuggu sig undir viðtölin, völdu hvernig þeir vildu hafa kynninguna og fengu undirbúningsblað hjá kennara sem þeir studdust við. Kristín Þóra Möller kennari við skólann gerði drögin að undirbúningsblaðinu sem aðrir kennarar útfærðu svo fyrir mismunandi aldurshópa en undirbúningur nemenda var að sjálfsögðu mismunandi eftir aldri þeirra.

Hjá eldri nemendum fóru þeir yfir hæfnikortin sín og spáðu fyrir um bókstaf í námsgreinum og ræddu um hvort hann endurspeglaði vinnuframlag þeirra í vetur.

Margir nemendur sögðu frá einu verkefni sem stóð upp úr í vetur, hvernig styrkleikar viðkomandi fengu að njóta sín og hvað þeir lærðu af því að vinna verkefnið.

Lesfimi var rædd og nemendur skoðuðu og útskýrðu lesfimi sína fyrir foreldrum.

Þá voru samskipti og samstarf nemenda við kennara, stjórnendur, starfsfólk, samnemendur og foreldra rædd.

Nemendur skoðuðu líka hvar tækifæri væri til vaxtar hjá þeim sjálfum á öllum sviðum.

Þegar kennarar voru spurðir út í viðhorf og að hve miklu leyti samtöl dagsins voru nemendastýrð kom margt áhugavert í ljós.

Kennarar í níu árgöngum af tíu voru frekar eða mjög ánægðir með fyrirkomulag nemendastýrðra viðtala.

Tveir árgangar voru með viðtölin að nokkru leyti nemendastýrð meðan flestir voru með frá 40%-80% af viðtalinu í höndum nemenda.

Kennarar höfðu svo þetta að segja um fyrirkomulagið.

  • „Frábært að hafa svona viðtöl.“
  • „Þetta var frábær leið fyrir viðtölin og hjálpaði okkur að sjá til dæmis hvaða styrkleika og veikleika nemendur telja sig hafa og þar af leiðandi hjálpar okkur að hjálpa þeim.“
  • „Þetta fyrirkomulag gerði nemendur að mun virkari þátttakendum í samtölunum en áður og almenn ánægja hjá foreldrum með þetta framtak.“
  • „Ég hef sjaldan verið sáttari við samtalsdag.“
Hnetur

Myndirnar sýna dæmi um hnetur eða mat sem inniheldur hnetur. Þær geta leynst í ýmsum öðrum matvörum.

  • Reykjanesbær
  • Heimili og skóli
  • Foreldrafélag Akurskóla