18. nóvember 2016

Spurningakeppnir og úrslit Akurpennans

Spurningakeppnir og úrslit Akurpennans

Í gær og fyrradag voru haldnar spurningakeppnir milli nemenda og kennara. Á degi íslenskrar tungu var spurningarkeppni milli nemenda á unglingastigi og kennara á unglingastigi og í gær, fimmtudag, var spurningakeppni á milli nemenda á miðstigi og kennara á miðstigi. Valdir voru þrír nemendur og þrír kennarar úr hvoru stigi fyrir sig. Spurningakeppnin samanstóð af hraðaspurningum, myndaþrautum og vísbendingaspurningum. Kennarar hlutu sigur í báðum keppnum, en litlu munaði milli liða í keppninni á miðstigi.

Áður en spurningakeppnirnar hófust var tilkynnt úrslit Akurpennans sem er árleg ljóða- og smásögukeppni Akurskóla. Á unglingastigi hlaut Birta María í 8.bekk sigur fyrir ljóð sitt Tíminn. Tveir vinningshafar voru á miðstigi, þær Sara Antonía í 7.bekk með ljóð sitt Stríð og Dagrún með ljóð sitt Einelti. Við óskum þeim til hamingju með sigurinn. Hér fyrir neðan má sjá ljóðin þeirra.

 

Stríð

Af hverju þessi endalausa illska ?
Óvinir mætast
og drepa og drepa.

Ekkert kvikt sleppur og hvorki
maður né kona snýr aftur.
Sprengjur falla og hermenn skjóta.
Í sundursprengdri byggingu
situr lítið barn og bíður.

Höf. Sara Antonía 7. bekk

 

Einelti 

Fólk eyðileggur líf annarra 

og þetta er hverju orði sannara. 

Við sum í einelti leggjum 

og verðum að vandræðaseggjum. 

 

 Þolandans er lífið leitt 

 en hann gerði ekki neitt. 

 Hvað þarf hann oft að þola 

 að meiðast og fara að skæla og vola. 

 

 Hlustið á mig öll sem eitt 

 við þessu getum saman breytt. 

 Við þurfum að leggja öðrum lið 

 og láta af þessum ljóta sið. 

 

Höf. Dagrún Ragnarsdóttir. 7. H.F

 

Tíminn

Tíminn líður

á meðan súpan sýður.

Dropar falla

þegar kvöldi tekur að halla.

Liðinn er tíminn

en þá hringir síminn.

Ég tala og tala

á meðan kötturinn er að mala.

Legg frá mér símann,

súpan brunnin

og mjólkin útrunnin.

Senn líður að kveldi,

betra að einhver annar eldi.

Þessi dagur er svo langur

og kötturinn svangur.

Allan þennan tíma!

og ég bara í þessum síma.

Hvert flaug tíminn?

 

Höf. Birta María 8. bekk

Hnetur

Myndirnar sýna dæmi um hnetur eða mat sem inniheldur hnetur. Þær geta leynst í ýmsum öðrum matvörum.

  • Reykjanesbær
  • Heimili og skóli
  • Foreldrafélag Akurskóla