17. desember 2021

Jólakveðja

Nú þegar árið 2021 er að líða undir lok lítum við til baka og rifjum upp jarðhræringar, eldgos, bólusetningar og þær takmarkanir sem Covid-19 hefur sett okkur á árinu með sóttkví, smitgát og skimunum. Við höfum samt verið ótrúlega heppin árið 2021 og fá smit komið upp í skólanum. Fyrir það getum við verið þakklát. Árið hefur líka verið gott á margan hátt og við erum stolt af nemendum okkar og starfsfólki. 

Í dag, 17. desember, voru litlu jólin haldin hátíðleg. Hver árgangur hélt sín jól í sínu rými. Stundin var svo brotin upp með heimsókn jólasveina á yngra stigi sem gáfu sleikjó og svo voru veitt verðlaun fyrir fallegustu jólahurðina. 2. bekkur hlaut verðlaun á yngsta stigi, 6. bekkur á miðstigi og 9. bekkur á elsta stigi. Viðurkenningarnar voru veittar í beinu streymi á TEAMS sem allir tóku þátt í. 

Í dag afhentum við einnig þátttökuverðlaun í ljóðasamkeppni Akurskóla, Akurpennanum. Nemendur skiluðu inn ljóðum á degi íslenskrar tungu og sá árgangur þar sem þátttakan var mest og nemendur skiluðu í heildina bestu ljóðunum fékk platta sem afhentur er í minningu Magneu Ólafsdóttur íslenskukennara við skólann sem lést langt um aldur fram árið 2020. Það var 5. bekkur sem hlaut viðurkenninguna. 

Nemendur í 10. bekk komu svo á sal í lok litlu jólanna og dönsuðu í kringum jólatréð.

Starfsfólk Akurskóla sendir nemendum, forráðamönnum og velunnurum skólans bestu jóla- og nýárskveðjur, með þökk fyrir samfylgdina á árinu 2021.

Kennsla hefst aftur eftir jólaleyfi þriðjudaginn 4. janúar 2022.

Hnetur

Myndirnar sýna dæmi um hnetur eða mat sem inniheldur hnetur. Þær geta leynst í ýmsum öðrum matvörum.

  • Reykjanesbær
  • Heimili og skóli
  • Foreldrafélag Akurskóla