10. nóvember 2023

Vígsla Lindarinnar á 18 ára afmæli skólans

Vígsla Lindarinnar á 18 ára afmæli skólans

Fimmtudaginn 9. nóvember var Lindin vígð formlega í Akurskóla á 18 ára vígsluafmæli skólans.

Lindin er sértækt námsúrræði á vegum Reykjanesbæjar sem er starfrækt í Akurskóla. Fyrsti vísir að Lindinni varð að vísu til fyrir tveimur árum með úrræði fyrir tvo nemendur á einhverfurófi innan skólans. Smátt og smátt hefur svo námsúrræði stækkað og er núna komið í það húsnæði sem hæfir því innan skólans.  

Lindin er að bætast við þrjú sértæk námsúrræði í Reykjanesbæ; Ösp, Eik og Björk. Nafnið Lind er í stíl við þau nöfn sem fyrir voru en nafnið Lind vísar í Linditré sem er tré af ætt stokkrósa. Samkvæmt heimildum er það mjög harðgert tré og heppilegt í erfiðu götuumhverfi. Lind getur líka verið vatnsrás úr grunnvatni upp á yfirborð jarðar, tært og ferskt vatn. Lindin er því eins og uppspretta einhvers góðs fyrir börnin en líka gott skjól eins og stórt og fallegt tré þegar á móti blæs.

Eins og áður segir voru nemendur Lindar fyrst tveir en urðu svo fjóri haustið 2022 og núna haustið 2023 eru átta nemendur í Lindinni. Stefnt er að því að Lindin verði athvarf tíu nemenda haustið 2024.  

Nemendur Lindar koma úr fimm skólum Reykjanesbæjar og tilheyra allir ákveðnum umsjónarbekk í Akurskóla. Kennslufyrirkomulagið er miðað að TEACCH líkaninu. Markmiðið með TEACCH er að nemendur geti unnið eins sjálfstætt og mögulegt er. Námsumhverfið er einstaklingsmiðað og aðlagað að þörfum hvers og eins. Sjónrænt skipulag er í boði fyrir nemendur. Unnið er í styttri lotum og er mikið notast við umbunarkerfi. Í deildinni er lögð áhersla á að nemendur nái færni í íslensku og stærðfræði og geti bjargað sér í daglegu lífi. Þá sækja nemendur Lindarinnar kennslustundir og frímínútur með sínum jafnöldrum eftir því sem við verður komið og njóta þá aðstoðar stuðningsfulltrúa. Nemendur fá einnig viðbótartíma í íþróttum og sundi. Aðal markmið úrræðisins er að hafa jákvæð áhrif á horfur barns og fjölskyldu og að efla lífsgæði barnsins.

Lindin hefur nú þegar notið velvildar úr nærsamfélaginu með ýmsum styrkjum. Við viljum þakka Hagkaup, Sportvörum, Lionsklúbbi Njarðvíkur og Blue Car góðgerðafestival fyrir hlýhug og veglega styrki síðustu vikur.

Hnetur

Myndirnar sýna dæmi um hnetur eða mat sem inniheldur hnetur. Þær geta leynst í ýmsum öðrum matvörum.

  • Reykjanesbær
  • Heimili og skóli
  • Foreldrafélag Akurskóla