Lindin

Lindin er sértækt námsúrræði í Akurskóla fyrir nemendur Reykjanesbæjar. Lindin var stofnuð haustið 2021, vígð formlega 9. nóvember 2023 og stefnt er að stækkun hennar smátt og smátt næstu árin þannig að hún þjóni 10-12 nemendum á hverjum tíma.

Kennslufyrirkomulag í Lind er miðað við TEACCH líkanið og þjálfun fer fram með atferlismótun að hluta. Kennsla í úrræðinu er að öðru leyti byggð á aðalnámskrá grunnskóla. Unnið er í styttri námslotum og notast við umbunarkerfi. Í Lind er lögð áhersla á að nemendur nái færni í stærðfræði og íslensku og geti bjargað sér í daglegu lífi.

Nemendur Lindar tilheyra allir ákveðnum umsjónarbekk og sækja kennslustundir og frímínútur með sínum jafnöldrum eftir því sem við verður komið og njóta þá aðstoðar stuðningsfulltrúa. Nemendur fá einnig viðbótartíma í íþróttum og sundi þegar hægt verður að koma því við.

Markmið úrræðisins er að hafa jákvæð áhrif á horfur barns og fjölskyldu og að efla lífsgæði barnsins. Hópurinn sem stundar nám í Lind er fjölbreytilegur og þjónustan þarf að taka mið af hverju barni fyrir sig og fjölskyldu þess.

Starfsáætlun Lindar

  • Reykjanesbær
  • Heimili og skóli
  • Foreldrafélag Akurskóla