Stefna skólans - Kennslufræðileg sýn

Skólastarf Akurskóla hvílir á lögum og reglugerðum um grunnskólastarf ásamt aðalnámskrá grunnskóla.

Gildi Akurskóla eru leiðarljós skólastarfsins en þau eru virðing, gleði og velgengni sem táknmyndirnar endurspegla. 

Merki skólans eru nemendur sem eins og plöntur vaxa upp af fræjum á akri. Mismunandi litur þeirra gefur til kynna að öll erum við ólík og höfum okkar sérstöðu.

Gildin eiga að endurspeglast í stefnu skólans og öllu hans starfi.

Í Akurskóla er nemandinn í forgrunni og leitast er við að leita allra leiða til að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda. Okkur finnst mikilvægt að allir nemendur hafi jöfn tækifæri til náms en leggjum líka áherslu á teymiskennslu kennara, Uppbyggingarstefnuna, Byrjendalæsi, góðan námsárangur, fjölbreytta kennsluhætti, útikennslu og jákvæð og öflug samskipti við foreldra .

Jöfn tækifæri til náms eru ein af grunnstoðum menntastefnu Reykjanesbæjar. Í Akurskóla er þörfum nemenda mætt úr frá námsstíl, námshæfni og áhuga. Unnið er með sterkar hliðar nemenda og miðað er að því að gera nemendur sjálfstæða í námi með góðri endurgjöf. Við skólann starfa fjölbreyttar starfsstéttir til að mæta nemendum á sem skilvirkastan hátt.

Teymiskennsla kennara er ein af lykilstoðum í námi og kennslu nemenda. Hver árgangur er ein heild með tvo eða fleiri umsjónarkennara sem saman bera ábyrgð á undirbúningi og skipulagi kennslunnar. Kennarar skipta oft með sér verkum þannig að styrkleikar hvers og eins nýtast sem best í kennslu.

Uppbyggingarstefnan er notuð er til að skapa jákvæðan skólabrag og tryggja velferð allra innan skólans. Lögð er áhersla á að byggja upp sjálfsaga og ábyrgð hjá einstaklingum með samræðum um lífsgildi og eigið sjálf. Lögð er áhersla á lífsgildin, ábyrgð og virðingu, og er nemendum kennt að bera ábyrgð á eigin orðum og gjörðum. 

Byrjendalæsi er samvirk kennsluaðferð í læsi í 1. - 3. bekk. Kennsluaðferðin byggir á því að lestur, ritun, tal og hlustun eru samofnir þættir þar sem merkingarbær viðfangsefni eru megináherslan og unnið er út frá gæðatexta. Áhersla er lögð á fjölbreytni og sveigjanleika í námsaðstæðum barnanna.

Til að stuðla að góðum námsárangri er námsumhverfi hvetjandi og væntingar eru gerðar til nemenda um nám óháð færni þeirra og getu. Allir nemendur fá áskorun og ögrun við hæfi í skólastarfinu.

Fjölbreyttir kennsluhættir og útikennsla eru ríkjandi þættir í skólastarfinu. Kennarar beita fjölbreyttum kennsluaðferðum í öllum kennslustundum og ígrunda starf sitt til að koma til móts við nemendur. Skólinn á útikennslusvæði, Narfakotsseylu, og nýtir það svæði ásamt öðru í nágrenni skólans til útikennslu. Nemendur læra að þekkja náttúruna og umhverfi skólans er nýtt til rannsókna og athugana.

Jákvæð og öflug samskipti við foreldra eru mikilvægur hlekkur í námi barnanna. Við viljum stuðla að faglegri samvinnu við foreldra og góðu upplýsingastreymi. Við skólann starfar öflugt foreldrafélag sem styður við skólann á allan hátt. Einnig er skólaráð skólastjórnendum til ráðgjafar þegar á þarf að halda. Skólinn sendir reglulega pósta á foreldra ásamt því að vera með lifandi heimasíðu og Facebook síðu.

Í Akurskóla ríkir faglegur metnaður og leitast er eftir að skólinn sé eftirsóttur vinnustaður þar sem starfsmenn finna fyrir öryggi og vellíðan og fá tækifæri til að vaxa í starfi.

  • Reykjanesbær
  • Heimili og skóli
  • Foreldrafélag Akurskóla