Comenius

Heimasíða verkefnisins - Childern Protecting the Planet

Akurskóli er þátttakandi í Comeniusarverkefni sem er samstarfsverkefni milli skóla í Evrópu. Comenius miðar að því að koma á gæðasamstarfi milli skóla, efla samvinnu og auka nýjungar í menntamálum.

Kennarar Akurskóla sendu inn umsókn til Evrópusambandsins árið 2011 og tveir kennarar fóru frá skólanum til Frakklands með það markmið að skipuleggja samstarfsverkefni. Fyrir utan Ísland voru Spánn, Þýskaland, Pólland, Frakkland og Finnland þátttakendur í verkefninu sem kallast „Children protecting the planet“.

Nemendur sem taka þátt í verkefninu eru um það bil 2500 ásamt 220 starfsmönnum. Vinnufundir þar sem kennarar þátttökulanda hittast eru haldnir einu sinni í hverju landi, þar bera kennarar saman bækur sínar, kynnast menntastefnu viðkomandi þjóða og þróa áframhaldandi samstarfsverkefni. Nemendur skólanna vinna verkefni á sama tíma í löndunum og afrakstur verkefnanna er kynntur hinum þjóðunum. Lögð er áhersla á að nemendur fræðist um það hvað er líkt og ólíkt á milli þjóðanna. Þegar hefur komið í ljós að þjóðirnar búa við ólíkar aðstæður hvað varðar umhverfismál og þar af leiðandi hafa nemendur og kennarar vanist ólíkum siðum. Íslendingar gera sér til dæmis ekki alltaf grein fyrir því hversu heppnir þeir eru að eiga nóg af vatni og fæstir þeirra skrúfa fyrir vatnið þegar þeir bursta tennurnar eða sápa sig í sturtu ólíkt flestum hinna þjóðanna.

Akurskóli er að standa sig vel í endurvinnslu og verndun umhverfis og markmiðið er að gera nemendur enn betur meðvitaða um náttúruna og mikilvægi þess að vernda hana. Umhverfisverkefni sem skólinn hefur unnið eru t.d. endurnýting og endurvinnsla pappírs, moltugerð og flokkun úrgangs auk þess sem skólinn notar margnota drykkjar- og mataráhöld. Það er nauðsynlegt fyrir nemendur og starfsfólk að vera meðvitaða um mikilvægi þess að fara vel með auðlindir Íslands og huga að því hvernig hægt er að spara vatn og orku og hvernig hægt er að endurvinna og endurnýta hluti. Verkefnið „Children protecting the planet“ snertir allar námsgreinar og gefur óþrjótandi tækifæri og möguleika til þess.

Starfsfólk og nemendur Akurskóla telja það forréttindi að geta sótt í Comeniusarsjóðinn sem gefur kennurum og nemendum tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn með reglubundnum ferðum til ólíkra landa og ekki síst að kynna Ísland og menningu þess. Samstarfið við skólana eflir fagvitund innan lærdómssamfélagsins í Akurskóla og ekki hvað síst eflir það kennara og nemendur sem fá að skyggnast inn í ólíka menningarheima og aðrar menntastefnur.

Nemendur á Íslandi hafa tekið þátt í ólíkum verkefnum á sama tíma og jafnaldrar þeirra í Evrópu, sem án efa gerir þá víðsýnni og hjálpar þeim að setja eigið líf, viðhorf, gildi og aðstæður í stærra samhengi.

Ferðir

Hnetur

Myndirnar sýna dæmi um hnetur eða mat sem inniheldur hnetur. Þær geta leynst í ýmsum öðrum matvörum.

  • Reykjanesbær
  • Heimili og skóli
  • Foreldrafélag Akurskóla