Dóra Björk, Alma og Þorgrímur tilnefnd til Hvatningarverðlauna menntaráðs

Í dag voru Hvatningarverðlaun menntaráðs afhent. Í ár voru 12 verkefni tilnefnd frá leik- og grunnskólum Reykjanesbæjar.
Allir leik-, grunn- og tónlistarskólar geta tilnefnt eitt verkefni og í ár var Kosningarverkefni í Akrinum tilnefnt frá Akurskóla.
Það er gaman að segja frá því að innan skólans voru átta verkefni borin upp til kynningar og starfsfólk kaus á milli verkefna um hvaða verkefni fór sem tilnefning frá skólanum.
Hér má kynna sér öll verkefnin sem kosið var um innan skólans.
Fjölbreytt og samþætt kennsla - Kosningaverkefni í Akrinum
Akurskóli hefur síðastliðin tvö ár unnið að þróunarverkefni sem felst í því að samþætta kennslu í ákveðnum námsgreinum undir heitinu „Akurinn“. Akurinn er námsumhverfi þar sem náttúrugreinar, samfélagsgreinar og upplýsingatækni fléttast saman og hæfniviðmið þessara greina eru þjálfuð og kennd í gegnum þemaverkefni í 8. – 10. bekk.
Verkefnið sem hér er tilnefnt til hvatningarverðlauna Menntaráðs Reykjanesbæjar er kosningaverkefni sem framkvæmt var í tengslum við alþingiskosningar í nóvember síðastliðnum og nemendur í 8. – 10. bekk unnu í Akrinum.
Verkefnið hófst á fræðslu um lýðræðishefð Íslands, þrískiptingu ríkisvaldsins og sögu og starfsemi Alþingis. Þessi grunnþekking varð undirstaða fyrir hagnýta þátttöku allra nemenda á unglingastigi sem stofnuðu sinn eigin stjórnmálaflokka, mótuðu stefnumál og unnu kynningarefni bæði á hefðbundnu og stafrænu formi.
Verkefnið efldi gagnrýna hugsun og tjáningarfærni nemenda. Þeir þjálfuðust í að koma með rökstuðning fyrir sínum málefnum, taka þátt í málefnalegum rökræðum og bregðast við gagnrýni – allt lykilfærni í lýðræðissamfélagi. Aðgengi að kynningarefni flokkanna á göngum skólans skapaði raunverulegt kosningaumhverfi sem endaði með formlegum kynningarræðum á sal þar sem nemendur kynntu stefnumál sín af öryggi og fagmennsku. Þess má geta að gestir frá Barna- og menntamálaráðuneytinu sem komu í heimsókn á þessum tíma veittu þessu verkefni sérstaka athygli og hrósuðu því sem þau sáu á veggjum skólans.
Hápunktur verkefnisins var svo lýðræðisleg kosning þar sem allir nemendur á unglingastigi fengu að nýta kosningarétt sinn. Allir nemendur lögðu sig fram í þessu verkefni og það var svo stjórnmálaflokkur úr 8. bekk sem náði að vinna stuðning samnemenda sinna og sigraði í kosningunum. Nemendur sýndu mikinn metnað fyrir verkefninu og lögðu sig allir fram við að skila góðum verkefnum. Vonandi verður þetta verkefni hvatning fyrir nemendur í framtíðinni að nýta kosningarétt sinn í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum.
Verkefnið undirbjó einnig nemendur vel undir að taka þátt í Skólaþingi þar sem starfsmenn Alþingis komu og leiddu nemendur í gegnum starfshætti þingheims við vinnslu laga.
Nemendurnir fengu tækifæri til að setja sig í spor þingmanna með því að leiða fyrir fram ákveðin málefni sem fyrir þá voru lögð til lykta á þingflokksfundum, nefndarfundum og þingfundum. Jafnframt hlustuðu nemendur á og mátu rök sérfræðinga sem kallaðir voru til sem veittu þingmönnum ráðgjöf. Þannig var ætlunin að veita innsýn í sambandið milli atburða í samfélaginu, skoðanamyndunar, pólitískra ákvarðana og starfa Alþingis og sýna áhrif almennings, sérfræðinga, fjölmiðla og hagsmunaaðila á löggjafarstarfið. Nemendur áttu að komast að lýðræðislegri niðurstöðu með því að hlusta á og meta rök og álit annarra og skiptast á skoðunum.
Nemendum var skipt í flokka og fengu ákveðin hlutverk og sjónarmið úthlutað og stóðu sig virkilega vel í að koma fram og tjá skoðanir sínar og flokksins sem þeir voru fulltrúar fyrir.
Skemmtileg frétt um verkefni og myndir: https://www.akurskoli.is/frettir/kosningar-i-akurskola---akurinn
Og hér um Skólaþingið: https://www.akurskoli.is/frettir/skolathing-i-akurskola
Kosningaverkefnið í Akrinum sýnir á áþreifanlegan hátt hvernig hægt er að samþætta margar námsgreinar á skapandi hátt og um leið efla lýðræðisvitund, gagnrýna hugsun og samfélagslega ábyrgð nemenda. Metnaður og virkni allra þátttakenda var til fyrirmyndar og verkefnið er skýrt dæmi um framsækið verkefni sem undirbýr nemendur fyrir virka þátttöku í lýðræðissamfélagi.
Tilnefndir voru: Dóra Björk Ólafsdóttir, Ragnheiður Alma Snæbjörnsdóttir og Þorgrímur Guðni Bjarnason

Myndirnar sýna dæmi um hnetur eða mat sem inniheldur hnetur. Þær geta leynst í ýmsum öðrum matvörum.